1. UPPHAF HESTAMENNSKUNNAR Á LIPPERTHOF


Flestir sem stunda hestamennsku á íslenskum hestum í Þýskalandi þekkja Veru Reber og mjög margir hafa einhvern tíman heyrt talað um keppnishestinn hennar „Frosta frá Fáskrúðarbakka“ sem var sigursæll í íþróttakeppnum bæði innanlands og utan.

Á 21. aldursári Frosta náði Vera með honum þeim merkilega áfanga að vinna silfur í 250 m skeiði á HM í Hollandi 1993. Árangur sem margan knapann dreymir bara um að ná!

Við hittum Veru á góðviðrisdegi síðastliðið haust og tökum tal saman.

„Svona hest eignast maður bara einu sinni á lífsleiðinni,“ segir Vera og brosir við. „Ég á Frosta mínum margt að þakka og má segja að hann hafi mótað mig,“ bætir hún hugsandi við.

Í lok sjöunda áratugarins var Lipperthof búgarður Reber fjölskyldunnar í uppbyggingu. Engan óraði fyrir því þá, að Lipperthof ætti eftir að verða þungamiðja ræktunar íslenska hestsins í Þýskalandi og það aðeins 20 árum síðar.


Vera Reber fæddist í smáborginni Weiden í suðaustanverðu Þýskalandi (í nágrenni við München) ekki langt frá Lipperthof í Wurz og þar bjó fjölskyldan fyrstu æviár hennar.

Litla húsið á Lipperthof.

Árið 1972 keyptu foreldrar hennar búgarðinn Lipperthof og þau hófust handa við að breyta og gera upp húsin. Árið 1978 flutti fjölskyldan að Lipperthof, en þá var ennþá verið að vinna að uppbyggingu staðarins.

Það er vart hægt að gera sér í hugarlund að á Lipperthof sem býður í dag uppá aðstöðu sem stenst alla staðla í hestamennskunni hafi í þá daga bara verið lítið hús. Í dag eru hýst þar rúmlega 150 hross, þar er hringvöllur, reiðhöll og margt fleira sem tilheyrir „nútíma“ hestamennsku.

En hvernig var það eiginlega í gamla daga, þegar fólk í Þýskalandi var að uppgötva gæði íslenska hestsins? Hvað var það eiginlega sem fékk fólk til að kaupa sér íslenskan hest? Hvar var hægt að kaupa hestana og hvernig gekk að temja þá?

Þekking á þessum smávöxnu hestum frá norðurhjara veraldar var fyrst í stað mjög takmörkuð og það voru fáir búgarðar með reiðkennslu þar sem byrjendur eða lengra komnir gátu fundið rétta hrossið til að læra að ríða hinar nýju gangtegundir tölt og skeið.


Töluvert er til af frásögnum um það hvernig íslenski hesturinn festi rætur í Þýskalandi. Frásögn Veru frá upphafi hestamennskunnar á Lipperthof tilheyrir einnig þeim flokki.

„Þetta var í lok sextugasta áratugarins og ég var mjög ung. Var ekki einu sinni byrjuð í skóla“ segir Vera. „Þetta byrjaði allt með föður mínum. Hann var mjög mikið „náttúrbarn“ og hann hafði ekki aðeins taugar til hesta heldur var hann líka óvenju mikill dýravinur þannig að móður minni var stundum nóg um.

Dýravinurinn faðir Veru Reber.

„Á tímabili kom hann heim úr vinnunni sífellt með  ný dýr handa okkur.

Í eitt skipti kom hann heim með hund og annað skipti með kanínu. Það var ekki alltaf auðvelt að finna stað fyrir dýrin á heimili okkar og þegar dverggeithafurinn sem faðir minn kom eitt skipti með heim, tætti í sig rósir móður minnar, þá var úti um heimilisfriðinn hjá okkur,“ segir Vera og hlær.

„En heimilisfriðurinn var aldrei mjög lengi í ólagi og það aftraði föður mínum ekki frá því að koma með ný dýr heim til okkar,“ bætir Vera við.

„Fyrstu hrossin sem við eignuðumst voru smáhestar af Hjaltlandseyjakyni sem hétu Orna,það var hryssan og Preso, það var geldingurinn. Pabbi gat náttúrulega ekki riðið út á þeim en það var einmitt stóri draumurinn hans að upplifa náttúruna á hestbaki.

„Það kom okkur því ekki á óvart, að hann keypti sér fljótlega hryssu af „stórhestakyni“ og kom henni fyrir í hesthúsi í nágrenninu. En draumur hans um að fara í skemmtilega, afslappandi reiðtúra á kvöldin eða um helgar varð að engu. Faðir minn hafði mikið að gera og lítinn frítíma.

Hann gat því í mesta lagi farið á bak á hryssunni einu sinni í viku sem þýddi að hún var hlaðin orku þegar hann fór á bak henni og hrekkti þá iðulega rækilega. Sem betur fór meiddist hann aldrei alvarlega. En svona sá hann ekki hestamennskuna fyrir sér!“

Uli Rebe, bróðir Veru á Preso.

En hann gafst ekki upp svo auðveldlega og fljótlega var hann búinn að fá nýja hugmynd.

Eitt kvöldið mundi hann allt í einu eftir barnabókum sem við áttum heima eftir Ursulu Bruns. „Dick og Dalli og hestarnir þeirra“ fjallaði m.a. um litla, loðna hesta sem margir þekktu m.a. vegna bíómyndar sem gerð var eftir sögunum og hét „Stúlkurnar frá Immenhof (Die Mädels vom Immenhof). Kannski væru þetta réttu hrossin til að skreppa á bak í skemmtilegan reiðtúr að loknum vinnudegi. Hvar var hægt að fá þessa skemmtulegu hesta?

„En faðir minn dó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og var fljótur að finna út hvar hægt var að komast í námunda við þessa hesta!“ segir Vera brosandi.

Þýtt úr þýsku.

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna