Klyfjahesturinn Jarpskjóni þjónaði eiganda sínum dyggilega í 12 ár. Mynd/María Gísladóttir

JARPSKJÓNI

Vanalega þykir mönnum vænna um reiðhesta sína en aðra hesta, enda er það fullkomlega eðlilegt, því þeir veita eigendum sínum marga undaðsstund og bera þá yfir margar hættur og torfærur. En þó kemur það fyrir að mönnum verði jafn vel til áburðarhesta.

Ég átti hest, jarpskjóttan, frá því hann var 4. vetra og þangað til hann var 16 ára. Ekki bar á því að hann væri vithestur meira en í meðallagi, en hann var hesta sterkastur, geðgóður, hlíðinn, þolinmóður og tryggur. Ég fann að hann átti svo gott skilið af mér, og ég lánaði hann aldrei öðrum og lét hann aldrei í vetrarfóður til annara.

Einu sinni höfðu vinnumenn mínir lagt á hann 16 fjórðunga klyfjar yfir fjallveg og líkaði mér það miður, en Skjóni styggðist ekki við það. Hann tölti í einum spretti heim og var jafn ánægður og geðgóður er hann kom heim á hlaðið, eins og hann var vanur.

Hann sýndi aldrei mótþróa, enda þótt börn væru að þvættast með hann fram og aftur. Hann strauk aldrei, en var þar sem hann var látinn og aldrei styggði hann nokkurn mann í þau 12 ár, sem ég átti hann. Þeir menn eru teljandi í sambúð, sem hægt er að segja slíkt um. Ég hafði oft lofað honum því með sjálfum mér, að dauðinn einn skyldi skilja okkur að.

Þegar staða mín breyttist, svo ég jafnan þurfti að vera á ferðum, afréð ég að láta selja bú mitt á uppboði. Þá var Jarpskjóni 16 vetra, með óskemmdum tönnum og bestu heilsu og að öllu útliti sem á blóma árum sínum. Ég vildi því hvorki firra hann lífi, þá þegar, eða selja hann og gerði því þá ráðstöfun, að hann skyldi ekki seljast.

Ætlaði ég að láta hann ganga sjálfala á afrétt á sumrum og koma honum í gott fóður á vetrum og láta hann þannig njóta lífsins gæða það sem eftir var af æfi hans, að launum fyrir langa og dygga þjónustu.

Jarpskjóni var í miklum metum hjá eiganda sínum, en fyrir mistök var hann seldur og leiðir þeirra skildu. Mynd/María Gísladóttir

Þegar uppboðið var haldið var ég erlendis, en fyrir óskiljanlega óheppni var Skjóni seldur. Þegar ég kom heim og frétti þetta, fór ég til sýslumannsins, til þess að fá að sjá hver hefði keypt hestinn og fékk að vita að maður nokkur í Eyjafirði hefði keypt hann.

Ég sendi þegar boð til eigandans, í þeim erindum að kaupa Skjóna af honum aftur, en þá var hann seldur austur í Norður-Múlasýslu. Ég setti svo mann út þar í sýslu til þess að kaupa hann, en fékk aftur þau skeyti, að hann væri kominn í hestkaupum í Suður-Múlasýslu og allt þetta hafði skeð á einum mánuði.

Ég gerði svo ýmsar tilraunir til þess að spyrja uppi hvar Skjóni væri niður kominn, en gat þó aldrei náð honum, svo ört gekk hann mann frá manni. Þetta voru launin, sem Skjóni fékk fyrir 12 ára trygga þjónustu. Þó óvilja verk væri, tel ég þetta meðal þess, sem ég hefi ómaklegast gert og sé enn eftir því að svona  tókst til.

Mig hefir oft furðað á því hugsunarleysi, kaldlyndi, vanþakklæti og mér liggur við að segja illmennsku, þegar menn selja gamla reiðhesta sína, sem hafa borið þá árum saman, skemmt þeim með mörgum sprettum og jafnvel forðað þeim frá lífsháska.

Það eru lítilmannleg laun fyrir langa þjónustu, því flestum er kunnugt um hvernig farið er með gamla hesta, sem ganga kaupum og sölum. Menn níða úr þeim lífið, brúka þá halta og meidda, af því þeir eins og orðtækið hljóðar „eiga að ganga sér til húðarinnar“.

Ef mönnum almennt félli það jafn illa, að sjá á bak reiðhestum sínum, eins og mér falla ófarir Jarpskjóna, þá myndu færri hestar fá það að launum, fyrir langa og trúa þjónustu, að flækjast mann frá manni í hestkaupum þar til lífið er kvalið úr þeim.Tryggvi Gunnarsson


Upprunalegur titill:      Jarpskjóni.  Dýravinurinn, 3. árgangur 1889, 3. tbl., bls. 45.

Textinn hefur verið lítilsháttar aðlagaður að nútíma máli og stafsetningu.

Passar við þessa sögu:

MARÍA SIGRÍÐUR GÍSLADÓTTIR

Okkur þykir einstaklega ánægjulegt að hafa fengið Maju til að myndskreyta fyrir okkur sögurnar. Ef þið viljið fá að vita meira um listakonuna Maju, getið þið haft samband við okkur.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna