Mynd/Wendy CorniquetPixabay 

“Börnin hafa ekki einu sinni tré til að klifra í”, sagði móðir þeirra, “ Við verðum að flytja úr borginni og út á land.“

Þannig kom það til að við fluttum árið 1969 frá Scotia í New York fylki í Bandaríkjunum á gamlan bóndabæ í Ballston Spa. Á bóndabænum var fullt af yndislegum eplatrjám og lítill, friðsæll lækur rann í gegnum landareignina.

Nágranni okkar herra W. hinum megin við götuna dundaði sér oft í matjurtagarðinum sínum og fylgdist skeptískur með hverri hreyfingu okkar í leiðinni.

Börnin okkar elskuðu að búa út á landi. Tímunum saman fóru þau með hundinn okkar í göngutúra út í skóg, klifruðu í eplatrjánum eða léku sér í litla læknum. Það var ekki kveikt á sjónvarpinu allt sumarið.

Einn góðan veðurdag birtust skyndilega tvö hross án knapa sem tóku stefnuna á eplatrén á bakvið húsið okkar. Ég spurði vin minn, bóndann í matjurtagarðinum hinum megin við götuna:

Nýja heimilið í Ballston Spa, USA. Mynd/Wendell Neugebauer

„Herra W., veist þú hver á þessi hross og af hverju þau eru hér?“
„Ég veit hver á þau“, svaraði hann, „þau hafa sloppið og enginn getur náð þeim.“
“Ég ætla að reyna það”, svaraði ég nokkuð góður með mig tilbaka. Nágranni minn horfði á mig og gat varla haldið niður í sér hlátrinum.

„Þú, sem ert af mölinni og verkfræðingur í þokkabót ætlar að ná þessum hrossum?“ sagði hann og skellti upp úr hlægjandi.
“Já, hvort ég ætla“, svaraði ég og snéri aftur til fjölskyldu minnar.

“Krakkar”, kallaði ég, „flýtið ykkur inn í bílinn. Við ætlum að fara að ná hestum.“

Það þurfti ekki að segja börnunum okkar fjórum þetta tvisvar og því þau voru strax til í þetta ævintýri.
Bíllinn hossaðist yfir ójöfnurnar og við fundum hestana ekki langt frá bænum okkar. Ég stöðvaði bílinn í nágrenni hrossanna og steig út úr bílnum. „Takið eftir krakkar og verið hljóð á meðan ég reyni að ná hestunum.“  

Ég nálgaðist hrossin hægt og rólega, rétti út hendurnar og flautaði lágt – nákvæmlega eins og Nonni (Jón Sveinsson) lýsir í bókunum sínum Sólskinsdagar, Á Skipalóni og Yfir holt og hæðir, en ég las allar bækurnar hans af áfergju sem unglingur

Fremra hrossið stóð kyrrt og sperrti eyrun fram á meðan ég færði mig varlega nær því. Það var með taum um hálsinn sem ég gat teygt mig í. Nú var ég virkilega búinn að ná öðru hrossinu, en hitt hljóp í burtu. Hrossið sem ég var búinn að ná teymdist vel heim að húsinu okkar. Þar batt ég hestinn og brynnti honum. Síðan fórum við aftur tilbaka og sóttum bílinn okkar.

Volkswagen bíllinn í eigu Neugebauerfjölskyldunnar. Mynd/Wendell Neugebauer

“Megum við eiga hestinn?”, spurðu börnin mig, “þú náðir hestinum sjálfur.”

“Nei það er ekki hægt, því það er einhver sem á þennan hest og við verðum að skila honum til eiganda síns aftur.

Síðan fór ég yfir til vinar míns með matjurtagarðinn hinum megin við götuna. Eins og vanalega hafði ekkert farið framhjá honum og undrunin skein úr andliti hans.

“Geturðu nokkuð hringt í eigandann og sagt honum að við höfum náð öðru hrossinu?“, bað ég hann, en á þessum tíma áttum við ekki sjálf síma.

“Já, það er ekkert mál”, svaraði hann á meðan hann horfði á mig eins og ég væri galdramaður. „Hvert heldurðu að hitt hrossið hafi farið?“ spurði ég.

“Það er örugglega komið heim, fyrst þú náðir félaga þess. Það hefur örugglega ekki hlaupið eitthvað út í buskann.“

Ég þakkaði honum fyrir mig og fór heim. Nágranni minn stóð fyrir framan húsið sitt og klóraði sér í höfðinu og hefur sennilega velt fyrir sér. „Hvernig fór hann að þessu? Hann er einn af þeim sem koma úr stórborginni, er verkfræðingur og hefur alla sína visku úr bókum!“

Ég sagði honum aldrei að ég hefði lært þetta af Nonna. Í Ameríku eru Nonna-bækurnar ekki þekktar, því flestar þeirra hafa ekki verið þýddar á ensku.

Seinna kom eigandinn og náði í hrossið sitt.

Þetta er sönn saga frá árinu 1969. 

Kærar þakkir Nonni!

Til hamingju með 160 ára afmælisdaginn þinn þann 16. nóvember 2017.

Wendell Neugebauer, 18. apríl, 2017
Ballston Spa, NY 12020

Passar við þessa sögu:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna