Klóki Hans, hinn heimsfrægi Orlov-brokkari frá Rússlandi. Myndir var tekin árið 1907. Mynd/Karl Krall (1863-1929).


Í lok 19. og byrjun 20. aldar beindist áhugi fólks að greind dýra meðal annars vegna kenninga og vísindagreina breska náttúrufræðingsins Charles Darwin sem stuttu áður höfðu birst almenningi.


Grunnskólakennarinn Wilhelm von Osten hafði einsett sér að sýna fram á hugræna hæfileika hrossa, en áðuren hann náði takmarki sínu drapst hesturinn hans úr hrossasótt og þar með eina „lifandi “ sönnunin sem hann hafði um hugvisku hrossa.


Nýr Hans kemur til sögunnar

Herra Osten var samt ekki á því að gefast upp og eftir nokkurra ára hlé fór hann aftur af stað, staðráðinn í að finna leið til að sanna hugsanagetu hrossa.

Árið 1900 ferðaðist hann til Rússlands í þeim tilgangi að finna nýjan hest fyrir rannsóknir sínar. Eftir nokkra leit fann hann fimm vetra gamlan brúnsokkóttan, stjörnóttan stóðhest af kyni Orlov-brokkara, sem hann keypti og flutti með sér til Berlínar. Þennan hest nefndi herra Osten Hans í höfuðið á forvera hans sem drapst úr hrossasótt.

Í millitíðinni var herra Osten kominn á eftirlaun, en hann hafði starfað allt sitt líf sem grunnskólakennari og kennt börnum bæði stærðfræði og teikningu. Nú hafði hann loksins nægan tíma til að sinna hugarefnum sínum og aðeins einn nemanda sem var Orlov-brokkarinn Hans!

Klóki Hans 15 vetra gamall árið 1910. Mynd/Karl Krall (1863-1929).

Hinn fjórfætti nemandi

Fljótlega komst herra Osten að því að hinn „nýi“ Hans var ekki eins auðsveipur og forveri hans, því hesturinn var bæði skapmikill og ör í geðslagi og einstaklega næmur fyrir utanaðkomandi áreitum.

Dag eftir dag, tímunum saman, hvernig sem viðraði og með alveg einstakri eljusemi kenndi herra Osten hestinum allt mögulegt sem fólk er ekki vant að kenna hestunum sínum.

Með svipuðum aðferðum og áður lærði hinn nýi Hans muninn á hægri og vinstri, upp, niður ofl. En lærimeistarinn lét ekki þar við staðar numið og kenndi hrossinu einnig að telja.

Við það notaði hann litlar keilur, þar sem fjöldi keilnanna táknaði viðkomandi tölustaf.


Liggjandi á hnjánum við hlið hestsins lyfti herra Osten upp hægri löpp hestsins um leið og hann endurtók tölustafinn einn og benti á keiluna.


Þetta endurtók hann þolinmóðurm klukkustundum saman. Eftir nokkrar vikur bætti hann annarri keilu við og svo koll af kolli. Á síðari stigum þjálfunarinnar skipti hann keilunum út fyrir tölustafi úr málmi.

„Hans, þetta er einn!“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).

En herra Osten uppskar líka árangur erfiðis síns því á innan við einu ári var hesturinn farinn að geta talið upp að 15 og þar með komin forsenda til að geta haldið áfram og kennt honum að reikna.


Hans var fljótur að læra og eftir aðeins tveggja ára „skólagöngu“ hjá herra Osten var hann farinn að „kunna“ allar helstu reikniaðgerðir eins og að leggja saman, draga frá, margfalda og deila.


Ekki nóg með það því hesturinn gat líka bókstafað orð og lesið. Hann þekkti tóna í tónstiganum, kunni skil á mynt, kunni á klukku, þekkti vikudagana og margt fleira sem hestar eiga ekki að geta framkvæmt, ekki einu sinni fjölleikahúshestar!

„Hans, hvað eru fjórir og tveir?“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).
Ákveðinn fjöldi af keilum var settur á borð fyrir framan hestinn. Hluti af þeim var hulinn með klút eða litlum kassa. Síðan var hesturinn beðinn um að leggja saman tölur sem mynduðu samanlagt heildarfjölda keilnanna. Um leið og hulunni var lyft var heildarfjöldinn nefndur.

Herra Osten kemur Hans á framfæri

Nú fannst herra Osten kominn tími til að sýna hvað í hestinum bjó. Hann bauð öllum helstu fræðimönnum í Berlín og nágrenni að koma og fylgjast með Hans reikna og lesa í bakgarðinum sínum. En eins og gefur að skilja voru skrif hans ekki tekin alvarlega og hann fékk enga svörun við heimboðunum.

Það hvarflaði hins vegar ekki að herra Osten að gefast upp og hann tók næst á það ráð að auglýsa hestinn í dagblöðunum.


„Ég er með stóðhest til sölu, sem ég hef notað til að rannsaka hugræna hæfileika og greind hrossa.

Hann er 7 vetra, dauðþægur, getur gert greinarmun á 10 mismunandi litum, kann að lesa og reikna og margt fleira!


Upplýsingar gefur Hr. W. Osten, Griebenowstraße 10, Berlín.“

„Hans, hvar er blár!“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).
Hans stendur fyrir framan spjöld með mismunandi litum og snertir með snoppunni viðkomandi litaspjald mit litnum sem hann var beðin um að sýna.

Með auglýsingunni vonaði herra Osten að hann gæti vakið athygli á hestinum, en eins og áður voru undirtektir dræmar, því fólk taldi að um apríl-gabb væri að ræða. En herra Osten lét ekki þar við sitja og auglýsti aftur í blöðunum.

Í þetta sinn bauð hann fólki að koma og fylgjast endurgjaldslaust með þjálfun hestsins í bakgarði sínum. Og loksins uppskar hann erindi sem erfiði, því auglýsingin vakti forvitni prússnesks undirherforingja sem heimsótti þá félaga.

Nú fóru hjólin að snúast hjá herra Osten, því herforinginn var forviða yfir því sem hann sá og skrifaði grein um reynslu sína af hestinum sem var birt í dagblaðinu Weltspiegel í júlí árið 1904.

Þar lýsir hann því hvernig hesturinn Hans „svaraði“ skilmerkilega öllum spurningum sem lagðar voru fyrir hann án þess að herra Osten hefði á einhvern hátt tækifæri til að hjálpa honum með bendingum.

Dag eftir dag leysti Klóki Hans ótrúlegustu verkefni að beiðni eiganda síns öllum viðstöddum til mikillar undrunar. Mynd/Karl Krall (1863-1929).


Hans verður frægur og fær viðurnefnið Klóki Hans

Eins og við var að búast, olli greinin miklu fjaðrafoki og framistaða hestsins á hvers manns vörum í Berlínarborg og víðar. Svo til daglega mátti finna greinar í þýskum dagblöðum um afrek Klóka Hans eins og farið var að kalla hestinn. Fyrir utan Griebenowstraße 10 skapaðist umferðaröngþveiti og bakgarðurinn fullur af fólki sem vildi sjá þennan undrahest.

Ekki leið heldur á löngu þar til hróður hestsins færðist út fyrir landamæri Þýskalands.

Í september árið 1904 var birt stór grein í New York Times með titlinum

„Berlin‘s woderful horse – He can do almost everything but talk!“,

sem útleggst þannig:

„Hinn frábæri undrahestur frá Berlín – sem nánast getur allt nema talað mannamál.“

Klóki Hans fyrir framan töflu með bókstöfum, sem notuð var til að Hans gæti stafsett orð. Mynd/Karl Krall (1863-1929).

Í greininni lýsir hughrifinn sjónarvottur m.a. því hvernig hrossið gat gert greinarmun á gulli, silfri og kopar, þekkt verðgildi þýskrar myntar, kunni brotareikning og var fært um að þekkja fólk af myndum sem því hafði verið sýnt.

Meira að segja prússneski menntamálaráðherrann heimsótti undrahestinn Klóka Hans í Berlín og lét sannfærast um að engin svik eða brögð væru höfð í tafli.


Vísindalegar rannsóknir á Kóka Hans

Til að skera úr um hvort herra Osten notaði bendingar eða brögð til að hafa áhrif á svör hestsins, var komið á fót 13 manna nefnd sem samanstóð ýmsu fagfólki svo sem sálfræðingi, dýralækni, dýratemjara úr fjölleikahúsi, líffræðingi, hestaþjálfara og fleira hestatendgu fólki.


Eftir að nefndin hafði í tvo daga spurt Klóka Hans spjörunum úr komst hún að þeirri samhljóða niðurstöðu, að engin brögð af hálfu herra Osten hefðu verið höfð í tafli.


Það var hægt að útiloka að herra Osten hefði meðvitað getað þjálfað upp ákveðin viðbrögð hjá hestinum því hann var í mörgum tilfellum víðs fjarri þegar hesturinn svaraði fyrirspurnunum nefndarinnar hárrétt!

Sérfræðingar að „stúdera“ hugræna hæfni hestsins Klóka Hans í bakgarði herra Osten. Mynd/Karl Krall (1863-1929).


Ráðgátan um Klóka Hans óleyst

En niðurstaða nefndarinnar leysti alls ekki ráðgátuna um Klóka Hans og því var áfram spáð og spekúlerað um alla Berlín. Margir töldu að hrossið gæti með einhvers konar dulspeki, hugsefjun eða hugsanaflutningi skynjað rétt svör við spurningum spyrjandans.

Stuttu eftir að nefndin kunngerði niðurstöðu sína hafði maður, að nafni Emilio Rendich, samband við einn nefndarmanna.


Hann sýndi honum hvernig tíkin Nóra, á svipaðan hátt og Klóki Hans, gat svarað ótrúlegustu spurningum sem lagðar voru fyrir hana með því að tjá svörin með gelti.


Kennslutæknina hafð herra Rendich tileinkað sér á nokkrum vikum með því að heimsækja Osten í Griebenowstraße og fylgjast með kennslustundum Klóka Hans.

„Hans, hvað sérðu marga karlmenn með höfuðföt?“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).


Hulunni lyft af ráðgátunni um Klóka Hans

Þessi nýja vitneskja um hundinn mun hafa ýtt undir að gerð var ný athugun á Klóka Hans. Í þetta sinn var það prófessor í sálfræði sem ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum rannsökuðu hestinn ítarlega seinni part ársins 1904.

Fjóra daga í viku í nokkra tíma í senn í rúmar sjö vikur voru gerðar alls konar tilraunir á Klóka Hans til að skera úr um hugræna hæfini hans, oftast nær í fjarveru herra Osten.

Þann 9. desember 1904 var svo hulunni loksins lyft af ráðgátunni um Klóka Hans.

Hesturinn Klóki Hans gat hvorki lesið né reiknað!

Eftir allt sem undan var gengið var þetta óvænt niðurstaða, sér í lagi fyrir herra Osten sem trúði því statt og stöðugt að Klóki Hans byggi yfir hugrænum hæfileikum.

Klóki Hans fylgist með lærimeistara sínum skrifa minnismiða. Mynd/Karl Krall (1863-1929).


Klóka Hans áhrifin

Með því að einangra Klóka Hans frá spyrjandanum þannig að hann hafði hvorki augnsamband við spyrjandann né aðra á svæðinu, tókst að sýna fram á að hrossið gat ekki leyst verkefnin nema að sjá til þeirra. Það sama var upp á teningnum ef spyrjandinn var óöruggur og vissi sjálfur ekki svarið við spurningunni sem hann lagði fyrir hestinn.


Þannig tókst rannsóknarmönnunum að sýna fram á að Klóki Hans var einstaklega næmur á ómeðvitaðar örlitlar hreyfingar spyrjandans og annarra í kringum hann.


Ómeðvituð spenna myndast hjá þeim sem spyr spurninganna leysist svo þegar þegar rétt svar kemur.

Með því að verðlauna hestinn með gulrót eða brauðbita hafði það með tímanum lært að þekkja allar þessar örlitlu breytingar í líkamshreyfingum spyrjandans og fólksins í kringum hann.

„Hans, þetta er beint!“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).
Herra Osten hélt áfram að kenna Hans í nokkur ár tilviðbótar eða þar til hann veiktist sjálfur alvarlega.

Niðurstaða rannsóknarinnar á Klóka Hans skipaði mikilvægan sess í rannsókna- og dýrasálfræði og var sálfræðifyrirbærið var nefnt eftir hestinum Klóka Hans áhrif eða der Kluge Hans Effekt!

Ævistarfið orðið að engu!

Fljótlega eftir að niðurstaða rannsóknarininnar var kynnt hvarf áhugi fólks á Klóka Hans og allt varð aftur rólegt í bakgarðinum í Griebenowstraße. Herra Osten sat eftir með sárt ennið en gafst ekki upp. Hann hélt áfram að kenna hestinum í nokkur ár tilviðbótar eða þar til hann veiktist.

Bitur í bragði mun herra Osten hafa haft í huga að selja eða jafnvel gefa hestinn til útlanda, í þeirri von að Klóki Hans fengi frekar þar verðskuldaða athygli.


Í lok júni árið 1909 lést herra Osten úr krabbameini. Hann var alla tíð sannfærður um hugræna hæfileika hestsins allt til dauðadags og trúði því að hann gæti bæði lesið og reiknað. Á sama tíma kenndi hann duttlungum í skapgerð hestsins um ófarirnar í lífi sínu.

Þrátt fyrir niðurstöðu rannsóknarinnar trúðu nágrannar herra Osten áfram á hugræna hæfileika hestins. Mynd/Karl Krall (1863-1929).
Klóki Hans með Karl Krall. Mynd/óþekktur ljósmyndari.
Eftir andlát herra Osten árið 1909 eignaðist Karl Krall hestinn Klóka Hans.


Hvað varð um Klóka Hans

Hin hinst ósk herra Ostens var að „lærisveinn“ hans Karl Krall að nafni fengi Klóka Hans að honum látnum. Stuttu eftir andlát herra Osten var hesturinn fluttur til Elberfeld í vestanverðu Þýskalandi þar sem hinn nýi eigandi hans bjó. Þar hélt herra Krall áfram rannsóknum á hugrænum hæfileikum hrossa með Klóka Hans og nokkrum öðrum hrossum.

Árið 1912 gaf hann út bók þar sem hann lýsti nákvæmlega rannsóknum sínum og rannsóknum herra Osten á Klóka Hans.

Karl Krall árið 1910 með stóðhestana sína Muhamed og Zarif, sem einnig höfðu lært að lesa og reikna. Mynd/A. Bender

Þrátt fyrir alls 17 ára rannsóknavinnu á þessu sviði tókst hvorugum þeirra að sannfæra umheiminn að hross væru gædd þeim hæfileikum að geta lesið og reiknað. Eigi að síður voru rannsóknir þeirra mjög merkilegar og hafa stuðlað að merkilegum áfanga í sálfræðirannsóknum og rannsóknum í dýrasálfræði.

Árið 1916 varð herra Krall að láta af hendi öll sín hross til þýska hersins. Fyrri heimsstyrjöldin var í fullum gangi og þar voru „mikilvægari“ verkefni fyrir hrossin. Þar á meðal var Klóki Hans.

Ekki er vitað neitt frekar um afdrif hestins.

Muhamed, Zarif og Klóki Hans bíða fyrir utan „kennslustofuna“ þeirra í Elberfeld. Mynd/Karl Krall.
Arabíski stóðhesturinn Zarif með kennara sínum Karl Krall að læra nýja bókstafi árið 1909. Mynd/óþekktur

HEIMILDIR:

  • Karl Krall, Denkende Tiere, Leipzig 1912
  • Oskar Pfungst, Das Pferd des Herrn von Osten (Der kluge Hans). En Beitrag zur experimentellen Tier- und Menschen Pshychologie, Leipzig 1907
  • www.wikipedia.org
  • Alla myndir úr bók eftir Karl Krall, Denkende Tiere, Leipzig 1912

Passar við þessa sögu:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna