„UMSKIPTINGARNIR“ BASSI OG BLOSSI

Heidi Schwörer í Þýskalandi segir frá reynslu sinni í sambandi við kaup á stóðhesti frá Íslandi.

IS1989165170 – Bassi frá Bakka, 10 vetra, myndin er tekin árið 1999 í febrúar.

Heidi byrjar á því að segja frá því þegar áhugafólk um íslenska hestinn flaug til Íslands í leit að góðum reiðhestum, þar sem framboð á þeim í Þýskalandi var ekki nægjanlegt. Sjálf flaug hún í ótalmörg skipti til Íslands einmitt til að finna rétta hestinn fyrir sig eða aðra.

Augu hennar ljóma þegar hún byrjar að segja okkur frá þessum tíma, þegar allt var svo spennandi fyrir henni. Í þá daga var „hestaheimurinn“ allt öðruvísi en hann er í dag.

„Hér áður fyrr höfðum við hvorki þekkinguna né þá tæknilegu möguleika sem eru á boðstólum í dag og alls kyns mistök voru algengari“, segir hún hugsandi og heldur áfram:

„Ein stóðhestakaup eru mér sérstaklega minnisstæð. Sagan í kringum þau líkist einna helst lygasögu. Ég get hlegið að þessu atviki í dag en mér var þá sko ekki hlátur í huga!

En hvað gerðist?

Frá því Heidi heimsótti Ísland í fyrsta skipti á landsmótinu á Þingvöllum árið 1978 hafði ýmislegt breyst hjá henni. Heidi var farin að rækta íslensk hross af fullum krafti og lagði mikið í sölurnar til að ná settum markmiðum.

Heidi ætlaði að leggja sitt af mörkunum til að bæta gæði íslenskra hrossa í Þýskalandi. Ekki höfðu allir Þjóðverjar tök á því að fljúga til Íslands til að finna góðhest því var bersýnilega þörf fyrir að bæta gæði hrossanna og auka framboð þeirra. Til að ná þessu markmiði komu aðeins góð kynbótahross til greina og Heidi leitaði því fyrir sér að nýjum stóðhesti á landsmóti íslenskra hestamanna.

Þar sá hún stóðhestinn Bassa frá Bakka sem hún féll strax fyrir. Hún minnist þess að hann var sýndur þrátt fyrir meiðsli á fæti, en samt gekk sýningin á honum frábærlega vel. Hún sannfærðist um að þetta væri einmitt hesturinn sem hún þyrfti á að halda og keypti hann.

En hún þurfti að bíða í næstum hálft ár eftir útflutningi til Þýskalands.

Í Neubronn var beðið eftir Bassa með óþreygju. Og það var ekki aðeins Heidi sem beið óþolinmóð eftir honum, heldur einnig fjöldi annarra ræktenda líka, því það voru komnar um 30 hryssur sem áttu að fara í hólfið til hestsins.

Sýning vegna inntöku þýska ættbók…
.. og hann flaug inn í ættbók.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Hesturinn stóð fyrir sínu og hryssurnar fóru aftur fylfullar til eiganda sinna. Nú biðu bara allir spenntir eftir vorinu að sjá folöldin undan honum.

En hjá Heidi lét tilhlökkunin á sér standa. Hún hafði ónotanlega tilfinningu sem hún gat ekki losnað við. Einhvern veginn fannst henni hesturinn vera öðru vísi en hún mundi eftir.

Gat hann hafa breyst svona mikið á hálfu ári?

Því miður var tilfinningin sem hún hafði rétt. Um haustið kom ræktandi hestsins Freyja Hilmarsdóttir í heimsókn til Neubronn, sem fann út hið rétta.

Þetta er ekki Bassi!

Þessi setning var eins og að fá löðrung í andlitið!

„Ég á ekki til orð til að lýsa því hvernig mér leið þegar við uppgötvuðum hvað hafði gerst. Greinilega hafði stóðhestum verið ruglað saman í útflutningnum.

Við þurftum að horfast í augu við sannleikann. Þrjátíu hryssur voru komnar með fyl undan röngum stóðhesti. Við fórum strax að vinna í því að leita uppi Bassa. Það mál leystist sem betur fer mjög fljótt.“

Auk Bassa var fluttur út á sama tíma annar rauður hestur svipaður í útliti, stærð og á svipuðum aldri. Það var stóðhesturinn Blossi frá Stóra-Hofi sem hafði lent hjá okkur en Bassi okkar var kominn til fólks einhvers staðar í austurhluta Þýskalands. Báðir hestarnir voru ekki einstaklingsmerktir eins og vaninn var í þá daga. Við útflutning hrossanna voru klippt númer í feldinn, en stundum komu líka hross án númera til Þýskalands útskýrir Heidi.

IS1988186001 – Blossi frá Stóra-Hofi 
IS1989165170 – Bassi frá Bakka

„Ég var mjög slegin yfir þessari frétt og verð að viðurkenna að mér leið ekki vel þegar ég hringdi í hryssueigendurna og færði þeim fréttina. En það þýðir ekkert annað en að vera heiðarlegur í svona tilfellum og ég lét strax alla vita af víxluninni.

Og það sem meira var, að enginn af þeirra hótaði að fara í mál við mig útaf þessu atviki! Ekki einn einasti!“

Vissulega skemmdi það ekki að hitt hrossið var einnig vel ættað. En samt sem áður er það undravert að allir hryssueigendurnir skyldu halda ró sinni og líta á þetta sem mistök sem geta komið fyrir.

„Hvað það varðar vorum við einstaklega heppin“, segir Heidi brosandi.

Við veltum fyrir okkur hvað myndi gerast í dag ef slík mistök kæmu fyrir. Það er reyndar ekki mikil hætta á því lengur, því öll hross sem fara frá Íslandi eru örmerkt í dag. Við erum næstum vissar um að svona atvik myndi kalla á allt önnur viðbrögð í dag.

Og að lokum greinir Heidi okkur frá því að útflutningsaðilanum þótti þetta atvik svo miður að hann gaf Heidi unga vel ættaða hryssu í sárabót fyrir þessi mistök. Það þætti víst heldur ekki sjálfsagt í dag!

Þýtt úr þýsku

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna