ÓGLEYMANLEGUR HESTUR

Það getur verið erfitt og vandasamt verk að þjálfa hesta eftir alvarleg meiðsli. Hér á eftir fer sérstæð saga af stóðhesti sem ungri konu tókst að byggja upp bæði líkamlega og andlega eftir alvarleg fótameiðsli og ná ótrúlegum árangri með honum á keppnisbrautinni.


Stundum finnst mér eins og það sé smá sannleikskorn í hestasögunum sem ég las sem barn. Ung stúlka hrífst af viltum, ótömdum stóðhesti. Með tímanum þýðist stóðhesturinn ungu stúlkuna og hún er sú eina sem getur riðið honum. Á endanum verða þau sigurvegarar í keppni. Já, sæll… dreymi þig bara áfram…

Hesturinn var aðeins tveggja vetra þegar hann kom með slitna sin beint af dýraspítalanum til okkar. Það versta var af staðið, en hann var langt frá því að vera búinn að ná sér. Á framanverðum afturfæti hafði sinin farið í sundur. Án stuðnings var fóturinn mjög óstöðugur um kjúkuna. Auk þess var hesturinn algjörlega búinn að glata öllu trausti til mannsins.

Hann var ljónstyggur og lét ekki ná sér, jafnvel í stíunni var erfitt að koma á hann múl,  sem gerði það næstum ómögulegt fyrir okkur að skipta um sárabindi á fætinum. Hann vildi ekki láta snerta á sér fótinn. Um leið og hann fann að fætinum var haldið fast,  kippti hann honum strax að sér.

Sennilega var hann ekki búinn að gleyma hvernig hann lá fastur með afturfótinn í rafmagnsgirðingunni og var trylltur af sársauka frá rafmagnshöggunum. Á dýraspítalanum varð að hálfsvæfa hann í hvert skipti sem skipta þurfi um sárabindi á fætinum.

Til að byrja með þurftum við að skipta um bindi daglega. Það var mikil vinna og þurfti að gefa honum talsvert magn af róandi lyfjum til að það tækist. Það var þýðingarlaust að reyna að snerta fótinn og jafnvel hættulegt standa of nálægt honum. Hann vildi ekki þýðast manninn og vildi í rauninni ekkert með okkur hafa að gera.

Síðan rann dagurinn upp, sem hann var teymdur út úr stíunni. Sárið var gróið á yfirborðinu, en stórt ör og bólga báru vitni um meðslin. Það var ævintýri líkast að teyma hann út. Mestan hluta hins stutta lífs þessa hests hafði hann verið lokaður inni í stíum. Hann hafði farið á mis við allt það sem unghrossin okkar fá almennt að upplifa þegar þau eru saman frjáls úti í haga.

Þessi fyrsti dagur sem hann fékk að fara út er eftirminnilegur fyrir alla sem á horfðu. Það var allt nýtt fyrir honum, skuggar, pollar, tré og runnar. Og varla var búið að sleppa honum þegar hann fór í loftköstum um gerðið. Loksins gat hann hreyft sig eftir allan þennan tíma.

Hreyft sig eins hann lysti. Ég hef sjaldan séð hest fagna frelsinu eins mikið og þennan. Enn þann dag í dag hefur hann gaman af því að hreyfa sig. Hann lifir fyrir að fá að hreyfa sig. Hoppar um, hleypur, stekkur og skvettir sér. Það virðist vera jafn mikilvægt fyrir hann að fá að hreyfa sig og að anda að sér súrefni. Kannski hefur hann einhvern grun um, að á tímabili vissi enginn hvort hann myndi nokkurn tíma geta hreyft sig á þennan hátt aftur.

Hann virtist fljótur að venjast sjúkrajárningunni. Við gátum því farið með hann í unghrossadóm og þar með fengið hann skráðan í þýska ættbók. Það var stórt skref fyrir okkur og tímabil vonarinnar hófst. Yrði kannski einhvern tíman hægt að nota hann til reiðar?

Eftir að hann hafði fengið að fylja fyrstu merina sína, var auðveldara að mýla hann í stíunni, því hann vonaði að við myndi teyma hann aftur til hryssu. Eftir þrotlausar æfingar fengum við svo loksins að snerta særða fótinn.

Síðan var byrjað að temja hann. Mjög varlega fyrst í stað, en þar sem það virtist ekki hafa nein áhrif á veika fótinn var haldið áfram. Með tímanum fór hann sætta sig við manninn, þó eftir sem áður væri hann mjög tortrygginn. Hann taldi sig ekki eiga góðs að vænta af mannfólkinu. Hann vildi miklu frekar fá að vera látinn í friði. En við vorum á leið í rétt átt með hann.

Einn góðan veðurdag var hann sleginn í veika fótinn af stóðhryssu. Hann varð strax draghaltur og fóturinn bólgnaði á augnarbliki. Það þýddi að hann fékk hálfsársfrí. Við vissum í rauninni ekki hvort bólgan myndi nokkurn tíma hjaðna. Þegar hann var loksins orðinn óhaltur byrjuðum við að þjálfa hann aftur ofurvarlega fyrst í stað.

Þegar við vorum búin að temja hann meira langaði okkur til að fá atvinnureiðmann til að sýna hann í kynbótadómi. En hann átti erfitt með að treysta nýjum knapa, þannig að ég fékk að þjálfa hann allan veturinn. Einhvern veginn gekk það dæmi upp og hann hætti fljótlega að vantreysta manninum. Frá því að ég byrjaði að ríða honum dugir mér að kalla og hann kemur, oft á harðastökki.

Í reiðtímum upplifum við ótrúlega hluti. Hann er mjög einbeittur og áhugasamur. Ég finn á hreyfingum hans hvernig  hann gengur og finn að hann setur fótinn niður nákvæmlega þar sem ég vil hafa hann. Hann hefur svo gaman af því að hreyfa sig og hann geislar af jákvæðri orku, þannig að ég get ekki annað en verið ánægð með árangurinn og það er toppurinn á tilverunni.

Ég gat varla talað eða hugsað um annað en hann fyrstu dagana á eftir. Sú hugsun að hann bíði eftir að ég komi til hans fær mig til að ljóma að innan.  Ég held að það sjáist á okkur hvað við erum ánægð með hvort annað. Ég vona að ekkert komi uppá og það haldi áfram að ganga svona vel með hann.

Hann stendur alltaf við hliðið þegar ég kem að sækja hann. Það er eins og hann viti alltaf nákvæmlega hvenær ég kem. Eða kannski heyrir hann í mér mun fyrr en ég geri mér grein fyrir. Það er ótrúlegt að upplifa þetta og mjög mikils virði fyrir mig.

Fyrsta mótið okkar saman gekk ekki vel. Hann sýndi reyndar hvað í honum bjó og var hreyfingarfallegur, en hljóðkerfið og plakötin voru aðeins og mikið fyrir hann.  Honum fannst öruggara að fara inn í miðjan hringinn en vera á keppnisbrautinni. Það víst ekki hægt að ætlast til þess að allar óskir rætist.


Á næsta móti gekk frábærlega vel því ég var búin að búa hann betur undir það sem ég ætlaðist til af honum. Við komum á keppnistaðinn seint á föstudagskvöld. Það var orðið dimmt og hann var mjög órólegur. Samt ákvað ég að sýna honum brautina og ríða einn hring. Hann var órólegur, það var orðið dimmt og hann var með hugann við eitthvað allt annað en að fara með mig rólega einn hring á brautinni.

Næsta morgunn hleypti ég honum út og leyfði honum að hlaupa aðeins um. Þegar við vorum svo komin inn á hringvöllinn gekk allt upp. Ég held að ég hafi ekki þurft að gera annað en að gefa honum bendingar á hvaða gangtegungd hann ætti að fara. Ég reyndi bara að stjórna hraðanum og trufla ekki taktinn.

Í undanrásum vorum við í fyrsta sæti í fjórgangi. Ég var viss um að við gætum haldið sætinu. Og sú var raunin, því við unnum fjórganginn um kvöldið. Ég er mjög stolt af honum og því ég veit að það er ekki sjálfsagt að hann skuli geta hreyft sig á þennan hátt.

Okkur gengur sífellt betur og betur, en ég geri mér grein fyrir því að það eru takmörk og ég verð að passa upp á fótinn. Hamingjusömust er ég þegar hann leggur höfuðið í kjöltuna á mér.

En nú er svo komið að ég get gert svo til allt með honum og það er aldrei leiðinlegt. Við erum stöðugt að bæta okkur og lærá á hvort annað. Stundum stend ég fyrir framan hann og horfi bara. Mig grunaði ekki að hann yrði svona frábær reiðhestur og að hann skildi velja mig til að mega njóta þess að fá að vera á baki hans.

Á kvöldin þegar ég geng út að girðingunni og sé dökkan skugga færast hljóðlega í áttina til mín, er mér alveg sama hversu seint eða dimmt er orðið. Það er svo yndislegt að upplifa hvert skref sem hann tekur í áttina til mín. Ég finn að mér þykir alltaf meira og meira vænt um hann.

Takk elsku karlinn minn!


Gwendolin Simper

Þýtt úr þýsku

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna