BESTI VINUR SUSANNE


Á dögunum sendi Susanne Buchholz okkur eftirfarandi frásögn um hestinn Þrumufleyg frá Litlu-Sandvík og samband þeirra, sem var mjög sérstakt.
Hún átti ógleymanlegar stundir með Fleyg eins og hún kallaði hann og deilir með okkur á Hestasögu nokkrum minningum um hestinn.

Susanne og Fleygur á góðri stundu. Mynd/ Susanne Buchholz

Ég keypti Fleyg þrátt fyrir að búið væri að vara mig við og segja mér að hesturinn væri mjög erfiður. Þetta var 1. nóvember 2011 á hestamiðstöðinni GPZ Aegidienberg í Þýskalandi.
Þegar ég sá þennan fallega, brúskjótta hest í fyrsta skipti var eins og eitthvað gerðist innra með mér. Ég gleymi aldrei þessu augnabliki og hvernig mér var innanbrjósts.

Og ég veit, að það var ekki bara útlit hans sem snerti mig, heldur einnig háttarlagið og útgeislunin. Á einhvern óskiljanlegan hátt var ég gjörsamlega heilluð af honum alveg frá upphafi!

Fleygur var alltaf mjög hræddur og tortrygginn gagnvart manninum. Það var líka ein af ástæðunum fyrir því að hann var til sölu.

Hann var fluttur út til Þýskalands árið 2009 og var í nýju heimkynnunum sínum fyrst í eigu konu sem ætlaði að nota hann sem reiðhest fyrir sjálfan sig. En það gekk ekki alveg upp. Stundum er það bara þannig að knapi og hross passa ekki saman.

Ég fann strax á mér að ég yrði rétta manneskjan fyrir þennan ljónstygga hest. Ég prófaði Fleyg bara einu sinni áðuren ég keypti hann. Það skipti ekki máli fyrir mig hvort hægt væri að ríða honum á fjaðurmögnuðu, hreinu tölti eða hvort hann færi bara á lulli, því ég fann að ég varð að eiganst þennan hest.

Árið 2015 er eftirfarandi færsla í dagbókinni minni um Fleyg:

Ég þakka þér Fleygur fyrir þessi 3,5 ár sem ég fékk að umgangast þig! Á þessum tíma höfum við lært að meta og bera virðingu fyrir hvort öðru. Það er mjög einlæg væntumþykja milli okkar. Þú varst besti vinurinn sem ég hef nokkurn tíman átt! Þú breyttist úr hræddum, styggum hesti í hetjuna mína!!!
Þúsund sinnum takk og kossar.

Í maí 2015


Nú hófst mjög spennandi tími. Margir í kringum mig sem vissu hvernig Fleygur var, hrukkuðu ennið og sögðu: „Ertu alveg frá þér? Þú kemur ekki til með að ná honum einu sinni út úr gerðinu!“

Ég lét þessi orð ekki hafa áhrif á mig og gekk rólega og án hiks að honum, klóraði honum á bakvið eyrun og setti múlinn á hann með hægum hreyfingum.

Og viti menn, ótrúlegt en satt… það tókst og hann fylgdi mér. Það voru ófáir starfsmenn hestamiðstöðvar Aegidienberg höfðu reynt að ná honum í gerðinu en orðið að hverfa frá. Fleygur fylgdi mér frá og með fyrsta degi! Þar með fannst mér í hafa fengið staðfestingu fyrir því, að tilfinning mín væri rétt. Ég varð að fara mjög hægt af stað og gefa honum tíma til að átta sig á aðstæðum.

Fleygur var með sumarexem og frekar úfinn þegar hann kom í mína eigu. Til að byrja með eyddi ég miklum tíma í að bursta hann og smyrja græðandi smyrslum á sárin hans. Ég fann hvað hann naut þess að láta eiga við sig og hversu þakklátur hann var, þegar sárin tóku að gróa. Ég fann líka hvernig traust hans til mín óx dag frá degi.

Fljótlega kom að því að fara með Fleyg í göngutúra um nágrennið. Á göngutúrunum talaði ég alltaf til hans með rólegri röddu. Það virtist róa hann, því hann var mjög stressaður fyrst í stað og þurfti ekki annað en lítinn fugl sem flaug upp til að hann hrykki við og tók stökk til hliðar. Ég lét alltaf sem ég hefði ekki tekið eftir neinu. Öðru og hvoru verðlaunaði ég hann með litlum mola. Hann þáði molann alltaf kurteis og var aldrei ágengur við mig.

Fleygur á leið í göngutúr. Mynd/Susanne Buchholz

Járningar voru vandamál. Það var aðeins einn járningarmaður sem gat járnað Fleyg og hann varð að gera það á mettíma. Ástæðan fyrir því var að við þurftum að gefa Fleyg deyfingarlyf til að geta járnað hann. Það leið ekki á löngu þar til að okkur tókst að járna hann án deyfingar. Hann var aldrei með neina illsku. Maður fékk bara á tilfinninguna að hann vildi ekki láta snerta á sér afturfæturna og settist því nánast á rassinn.

Fleygur var hræddur við karlmenn, sérstaklega ef þeir voru með eitthvað á höfðinu og ef karlmaður nálgaðist hann, stóð hann stjarfur og hræðslan skein úr augunum.

Guð má vita hvað Fleygur hefur þurft að upplifa!

Svo rann upp sá dagur að ég þorði að stíga á bak honum. Það varð að gerast mjög varlega og á rólegum stað. Ég var í sæluvímu að það skyldi takast og við gætum farið saman í útreiðartúra út í náttúruna.

Ég hélt uppteknum hætti og gaf honum góðan tíma til að átta sig á umhverfinu. Tíma til að átta sig á því að hindranir sem urðu á vegi okkar voru ekki hættulegar og tíma til að læra að tölta. Og alveg sama hvað varð á vegi okkar, það mikilvægasta var að við tókum á því saman. Það var okkar sameiginlega takmark.

Þannig urðu margir hlutir auðveldir sem hefðu verið óhugsanlegir fyrir nokkrum vikum. Til dæmis var það ekki lengur vandamál að ná Fleyg út á túni eða í gerðinu. Við lærðum að þekkja inn á hvort annað og ég skildi alltaf betur og betur hvernig ég gat hjálpað honum að vinna bug á hræðslu sinni og minni í leiðinni líka.

Um vorið ætlaði ég að setja á hann exemábreiðu. Það reyndist verða meiri háttar mál þar sem ábreiðan var dökkbrún. Ég talaði mjög rólega til hans en það þýddi lítið.

Mér tókst ekki að setja hann í ábreiðu fyrr en ég kom með ljósgráa ábreiðu, sem hann sætti sig við og vandist mjög fljótlega. Ég gaf honum líka þörungameðal sem ég setti inn í epli sem hann fékk reglulega. Og árangurinn kom fljótlega í ljós því faxið óx á ný og hann breyttist í gullfallegan hest.

Það var líka erfiðleikum háð að láta bólusetja Fleyg. Ég er enn þann dag í dag þakklát dýralækninum mínum, að hann skyldi taka sér svona góðan tíma þegar hann kom til að bólusetja Fleyg.

Á leið í útreiðartúr. Mynd/Susanne Buchholz

Þegar mikið var um að vera á hestamiðstöðinni þýddi það stress fyrir Fleyg. Þá flýtti ég mér að setja á hann hnakk og beisli og við drifum okkur út í náttúruna. Þótt undarlegt megi virðast var fótgangandi fólk, hundar, bílar og allt annað sem varð á vegi okkar ekkert vandamál fyrir hann þegar ég var komin á bak honum.

Þannig gerði ég mér grein fyrir því að vinna í hendi var meira vandamál en útreiðar. Þess vegna fórum við í mjög marga yndislega reiðtúra, yfirleitt ein en stundum í litlum hóp. Eftir spennandi tvö ár var Fleygur orðinn svo meðfærilegur að við gátum tekið þátt í töltnámskeiði.

Þegar ég kom til hans á morgnana þá heilsaði hann mér glaðlega við hlið gerðisins. Það var yndisleg tilfinning, því gagnvart öðrum var hann áfram tortrygginn og leyfði þeim varla að strjúka sig.

Í desember árið 2014 tókum við meira að segja þátt í „jólahópreið“. Við vorum farin að þekkja hvort annað og treysta fullkomnlega!

Ég hefði vel getað hugsað mér að þetta ástand myndi vara að eilífu, en því miður átti okkur ekki eftir að auðnast það.

Hálfum mánuði síðar meiddist Fleygur í gerðinu og varð draghaltur. Á dýraspítalanum var hann greindur með alvarleg kjúkumeiðsl. Mánuðum saman stóð hann í stíu. Það var mjög erfitt fyrir hann, því hann var hræddur við allt sem hreyfðist utan við stíuna  og fældist oft til hliðar. Það var náttúrulega ekki gott fyrir batann. Eftir að hafa ráðfært mig við dýralækni ákvað ég að setja Fleyg út á tún í hjörð sem samanstóð af rólegum eldri hrossum, þar sem hann átti að fá meiri ró og meiðslin gætu gróið með tímanum.

Hvern hefði átt að óra fyrir því sem nú gerðist?

Fleygur var svo feginn frelsinu að hann stökk niður af hestakerrunni og hefur sennilega lent illa á meidda fætinum. Það tók mikið á mig að sjá hann haltra á þremur fótum til hinna hrossanna. Þessi mynd hefur grafið sig fasta í huga mínum. Mögulega hefur hann með þessu eina stökki rifið kjúkuböndin endanlega.

Fleyg leið ekki vel á dýraspítalanum og fékk hræðsluköst. Þess vegna ákvað ég í samráði við dýralækninn minn að láta ekki meðhöndla hann þar.

Þrumufleygur frá Litlu-Sandvík, * vorið 2001 – † 26.05.2015. Mynd/Susanne Buchholz

Ég lét Fleyg vera áfram á túninu hjá hinum hrossunum. Hann lifði tæplega tvær vikur til viðbótar. Þegar ég sá að hann hreyfði sig varla úr sporunum þrátt fyrir verkjalyfin sem ég gaf honum daglega ákvað að láta svæfa hann.

Ég sakna Fleygs enn þann dag í dag þó liðin séu næstum fjögur ár síðan hann fór yfir móðuna miklu. Hann var draumahesturinn minn. Í gegnum hann upplifði ég hvað það þýðir að eiga dýr að góðum vini.

Susanne Buchholz

Þýtt úr þýsku

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna