Aldrei verð ég svo gamall að ég gleymi atviki, sem fyrir mig kom, þegar ég var á ellefta árinu. Ég var þá vikadrengur í sveit og hafði verið á sama bænum nokkur undanfarin sumur. Aðalstarf mitt var, ef svo mætti að orði kveða, að færa mat og kaffi á engjar. Til þess var mér ætlaður sami hesturinn, 16 vetra gamall, móskolóttur að lit og aldrei nefndur annað en Mósi.

Ég var eins og aðrir drengir sem dvelja í sveit gefinn fyrir að vera á baki góðum hesti. „En var þá Mósi gamli nokkuð gæðingur?“ verður ef til vill einhverjum á að spyrja.

Ekki mun ég halda því fram þar sem hann var kominn til ára sinna er ég kynntist honum fyrst. En þá er ég illa svikinn ef hann hefir ekki verið léttúðugur og frár á fæti, þegar hann stóð upp á sitt besta. Þegar samvera okkar Mósa hófst, var æskuléttleiki hans eflaust horfinn og hann tekinn að dofna og lýjast. Þó var hann jafnan sporviljugur, taumléttur og mjög þýður undir. Og einstök þægðarskepna var hann í allri notkun.

Ég á Mósa margt að þakka frá þessum æskusumrum mínum. Hann sparaði mér margt sporið og var jafnan sá, er best létti undir með mér og studdi mig í flestum erfiðari snúningum mínum. Það væri því tryggðarrof frá minni hendi að tala illa um hann nú, þegar hann er allur og samvistum okkar fyrir löngu slitið.

Minningarnar um Mósa gamla verða mér því lengi kærar og ekki síst vegna þess að ég fæ því aldrei hrundið úr huga mér að honum eigi ég líf að launa, að nokkuru leyti ef ekki öllu.

Minningar um Mósa gamla verma mér um hjartarætur, því ég á honum líf mitt að launa. Mynd/María Gísladóttir

Það var góðviðrisdag einn á engjaslætti. Ég hafði að mestu lokið morgunverkum þeim, sem mér voru ætluð heima fyrir og rölti með beisli í hendi út fyrir tún til þess að sækja Mósa. Var liðið að þeim tíma, sem færa átti engjafólkinu hádegismatinn. Þegar ég kom til Mósa leit hann upp undur meinleysislega og horfði á mig en úr augum hans þóttist ég geta lesið  „Er þá orðið svona framorðið?“

Og um leið og ég beislaði hann virtist mér einhver mæðusvipur færast yfir hann. Ég leiddi Mósa heim í hlað og lagði á hann hnakkpútu, sem ég hafði að láni um sumarið. Síðan kom húsfreyja með það sem færa átti fólkinu. Var það allstór fata með vökvum í og böggull með hveitikökum. Böggulinn batt ég við belti sem ég var gyrtur með, en húsfreyja rétti mér fötuna þegar ég var kominn á bak, því ég átti að reiða hana fyrir framan mig.


Þegar ég hafði komið mér sem best fyrir rölti Mósi með mig niður traðirnar. Engjarnar voru vallendisrimar og brekkur út með fjallinu. Lágu götuslitur meðfram fjallsrótunum yfir djúp gil og skorninga og var sú leið mjög seinfarin.

Það var talinn einnar stundar lestagangur heiman frá bænum og til fólksins. Að vísu mátti fara aðra leið, sem var mun styttri. Var þá farið neðan við öll gil, yfir mýri, sem öll var með keldum og forarfenjum. Hafði húsbóndi minn harðbannað mér að fara styttri leiðina vegna forarfenjanna, sem búast mætti við að mér tækist ekki að sneiða hjá án þess að hleypa ofan í og þá gæti illa farið fyrir mér og hestinum.

Fram að þessu hafði ég jafnan fylgt ráðum bónda og farið götutroðningana út með fjallinu. Þegar út fyrir túnið kom flaug mér í hug að gaman væri að prófa neðri leiðina. Má vera að nokkuru hafi valdið þar um, að daginn áður hafði bóndi hreytt í mig ónotum fyrir það hvað seint ég kæmi með matinn og átti ég þó enga sök á því. Ég skyldi því í þetta sinn gera mitt til að koma ekki of seint og þar með var teningunum kastað og styttri leiðin valin.

Mér var líka kunnugt um, að auðvelt var að beygja upp að fjallinu, rétt áður en sæist til ferða minna frá fólkinu, svo litið gæti út eins og ég kæmi mína vanaleið. Og þó að Mósi yrði leirugur, venju fremur og ég spurður hverju það sætti ætlaði ég að segja, að hann hefði verið í mýrinni framan við bæinn, en þar skorti hvorki keldur né foræði.

Okkur sóttist ferðin vel og átti Mósi eflaust sinn þátt í því að velja leiðina. Hann sneiddi hjá dýjunum og verstu fenjunum og stiklaði á þúfnakollum þar sem því var við komið. Ég var því farinn að gera mér bestu vonir um að allt færi vel.

En þó var versti kaflinn eftir, að þræða neðan við svo nefnt lllagil, sem þótti bera nafn með réttu. Þar voru keldurnar verstar, dýin þéttust og jarðvegurinn svo að segja einn samfeldur forarsvakki. Þó var ekki um annað að gera, en halda áfram og lét ég Mósa að mestu ráða.

Alt í einu sökk Mósi á kaf í eitt fenið. Gerðist það í svo skjótri svipan að ég gat ekki áttað mig á neinu. Þó varð mér ljóst að ekki hafði ég gyrt of vel á Mósa, því að um leið og hann sökk á kaf, hallaðist hann á aðra hliðina, en hnakkurinn snaraðist svo að segja undir kvið og ég með. Flaut forarleðjan um axlir mér og háls og höfuðið aðeins upp úr. Ég gat enga björg mér veitt og hvorki hreyft legg né lið. Og hefði Mósi reynt að brjótast um, mundi af því hafa leitt, að ég hefði sigið dýpra í forarleðjuna, troðist undir hestinum og kafnað þarna.

En það var eins og blessuð skepnan skildi þetta, því að ekki hreyfði hún sig hið minsta. Þó mundi þess varla langt að bíða, að við myndum hverfa niður í dýið, ef engin hjálp kæmi. En hvernig var mér varið og hví reyndi ég ekki að kalla á hjálp? Vel gat þó farið svo að köll min heyrðust til fólksins, en ég þagði eins og steinn, eins og mér væri varnað þess að koma upp nokkru hljóði.

Á þessu augnabliki flaug svo margt í huga mér, en ég gat ekki áttað mig á neinu. Enginn minnsti hræðsluvottur greip mig og furðar mig á því enn þann dag í dag, því að eiginlega var ekki fram á annað að sjá, en að dauðinn hlyti að bíða mín í þessu botnlausa forardíki.

Nú víkur sögunni til fólksins þar sem það var að slá og raka spölkorn fyrir vestan Illagil, en vegna leitis sem á milli bar, hafði það ekkert getað séð til ferða okkar Mósa. En þá kom fyrir smávægilegt atvik, sem mér hefur síðan fundist eins og yfirnáttúruleg bending frá einhverju ósýnilegu æðra valdi eða forlagahöndum.


Ein stúlkan varð fyrir því óhappi að brjóta hrífuna sína. Hirti húsbóndinn brotin og labbaði með þau upp að tjaldi engjafólksins, en það stóð ofar í brekkunum og sást þaðan nokkurn veginn yfir mýrina. í tjaldinu voru geymd smíðatól og amboð og ætlaði hann að sækja þangað nýja hrífu.

Þegar bóndi sneri frá tjaldinu varð honum litið niður á mýrina og sá þá hvar Mósi sat á kafi í einu feninu, en mig sá hann ekki, sem varla var von. Það var ekki svo mikið upp úr af mér.

Kallaði bóndi til kaupamanna sinna að bregðast fljótt við og koma á eftir sér með reipi, en sjálfur tók hann til fótanna og skundaði til okkar Mósa. Ekki varð ég hans var eða sá hann, fyrr en hann stóð svo að segja yfir okkur.

í raun og veru var húsbóndi minn gæðadrengur, en örlyndur nokkuð og gat þá verið kaldur og ónotalegur í orðum. Og í þetta sinn gat hann ekki stillt sig um að tala til mín nokkuð hryssingslega áðuren hann reyndi til að bjarga mér.

En mér sárnaði við hann og flaug í hug að gætnari manni hefði farist á annan veg ef hann hefði hitt barn svo nauðulega statt. Hann hefði tæplega byrjað á því að ávíta mig og ausa yfir mig ókvæðisorðum þótt mér hefði orðið á að breyta frá því, sem fyrir mig hafði verið lagt.

Síðan fór hann að bisa við að hjálpa mér og tókst með allmikilli áreynslu að tosa mig upp úr feninu. Ekki hreyfði Mósi sig á meðan á björgun minni stóð og þá stund, sem piltarnir voru að koma reipum undir hann bærði hann ekkert á sér.


Ég hefi aldrei, hvorki fyrr né siðar, séð neina skepnu sýna jafnmikla ró og stillingu undir slíkum kringumstæðum. En þegar tekið var í böndin braust hann rösklega um og sýndi þá bæði snerpu og afl í átökum sínum.

Enda skipti það engum togum að hann reif sig upp úr með hjálp mannanna og kom fótunum fyrir sig. Frýsaði hann þá hraustlega og hristi sig en ekki þótti augað fallegt, sem hann rendi að þessum óhappastað um leið og hann reyndi að fjarlægjast hann.

Ég ætla ekki að lýsa því hvernig ég leit út eftir þetta forarbað. Það geta víst flestir gert sér í hugarlund. En af matnum er það að segja að fatan með því sem í henni var, týndist í botnlaust fenið og hefir aldrei fundist síðan. Kökuböggullinn, sem bundinn var við belti mitt, var það eina sem bjargaðist, en ekki þóttu kökurnar lostætari á eftir.

Ég man enn að mér gleymdist að rétta húsbónda mínum hendina og þakka fyrir hjálpina. Má vel vera að ástæðan hafi verið sú að mér var gramt í geði út af orðum þeim, sem hann hafði til mín kastað. En ég gekk til Mósa gamla, hjúfraði mig upp að honum og klappaði honum.

Mér var ljúft að þakka honum enda hafði hann sýnt mér meiri nærgætni en húsbóndinn. Að vísu var Mósi aðeins, það sem kallað er, „skynlaus skepna“, en þó hafði hann skilið hættuna og með sinni dæmalausu ró og stillingu átt drýgsta þáttinn í björgun okkar.

En sjálfur hafði ég ekki skilið í hve mikilli hættu ég var staddur. Mér varð það ekki ljóst fyrr en eftir á, er ég heyrði það berast í tal á meðal heimilisfólksins. Á seinni árum hefir hugur minn oft staldrað við atvik þetta og minningin um Mósa gamla hefur þá skotið upp. Hlýjar sú minning mér betur en flestar aðrar og Mósa mun ég aldrei gleyma, þó að runnið hafi hann æviskeið sitt fyrir nokkurum árum.

Minning hans verður jafnan bundin við þetta litla brot úr ævisögu minni og þá um leið minnst rólyndis hans og þeirra frábæru vitsmuna er hann sýndi á þessari örlagaríku stund. Hann tel ég í raun og veru lífgjafa minn, þó að húsbóndinn framkvæmdi björgunina.

Hinsvegar finnst mér það ekki ómerkilegt atriði, að hrífan skyldi einmitt brotna í sama mund og við Mósi sukkum í fenið. Hefði hrífan ekki brotnað og bóndi ekki labbað upp að tjaldinu, er eins líklegt að eftir okkur hefði ekki verið tekið, fyrren það var um seinan.

Þess vegna hefir mér fundist að allt þetta hafi verið atvik og tildrög í höndum þess valds sem við skynjum ekki, en virðist þó hafa líf mannanna í hendi sér og teflir því fram á skákborði lífsins með ósýnilegum höndum og óskiljanlegum atvikum.


Largó

Upprunalegur titill:      Mósa minning.  Dýraverndarinn, 17. árgangur 1931, 8. tbl., bls. 65-66.

Textinn hefur verið lítilsháttar aðlagaður að nútíma máli og stafsetningu.

Passar við þessa sögu:

MARÍA SIGRÍÐUR GÍSLADÓTTIR

Okkur þykir einstaklega ánægjulegt að hafa fengið Maju til að myndskreyta fyrir okkur sögurnar. Ef þið viljið fá að vita meira um listakonuna Maju, getið þið haft samband við okkur.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna