úr flokknum menning og saga:

Færeyjar – náttúruperla sem kemur á óvart!

Færeyjar að nálgast, umluktar dularfullu mistri. Mynd/Nico Kopf

Það er ekki aðeins þoka, rok og rigning sem bíður ferðamannsins í Færeyjum, heldur einnig hrífandi landslag og skemmtilegt fólk. Ég komst að því nýlega, þegar ég var að lesa mig til um færeyska hestinn og skoða myndbönd um eyjarnar.

Þrátt fyrir að margt sé mjög líkt með Færeyjum og Íslandi, bæði hvað varðar landslag og menningu, þá kom mér ýmislegt á óvart og forvitni mín og löngum eftir að fá að upplifa eyjarnar að eigin raun fór stöðugt vaxandi. Það endaði náttúrulega með því að ég bókaði mér ferð með Smyrli og ég áætla að fara til Færeyja í mars (2022).

Ég mun deila upplifun minni af ferðinni í máli og myndum síðar hér hjá okkur á HestaSögu. Til að byrja með hef ég tekið saman nokkrar staðreyndir um eyjarnar sem ég fann á netinu og tvö stutt myndbönd sem ég mæli með að þið kíkið á. Kannski kveikir það áhuga hjá fleirum en mér að skella sér til Færeyja á næstunni!

Ótrúlega falleg náttúra bíður ferðamannsins í Færeyjum. Mynd/Mikkel Wejdemann.

Þverhníptir klettar, drangar og undurfögur fjöll

Færeyjar eru eyjaklasi í Atlantshafi sem samanstendur af 18 misstórum eyjum sem liggja á 62° breiddargráðu milli Skotlands, Noregs og Íslands. Minnst eyjanna er Lítla Dímun sem er aðeins 0,8 km2 og stærst þeirra er Streymoy með 375 km2. Alls eru Færeyjar að flatarmáli rúmlega 1.396 km2 sem er í heildina heldur minna en t.d. Vestur-Barðastrandarsýsla á Íslandi.

Eyjarnar eru fjöllóttar og rísa margar þeirra snarbratt upp úr sjónum með hrikalegum, þverhníptum, klettaveggjum. Sem dæmi má nefna að Cape Enniberg á Viðoy er með 754 metra er talið vera hæsta standberg, sem rís lóðrétt upp úr sjónum í heimi. Á Kunoy er klettaveggurinn Kunoyernakkur sem reyndar er aðeins hærri eða 819 metrar, en hann rís ekki lóðrétt upp úr sjónum.

Þeir sem ganga á hæsta fjall Færeyja, Slættaratind (880 metrar) á Eysturoy, á heiðríkum degi hafa útsýni yfir allar 18 eyjarnar. Sumir segja að við einstaklega góðar aðstæður sé jafnvel hægt að sjá alla leið til Íslands.

Um það bil 70.000 kindur eru á eyjunum. Mynd/Rav.

Fleiri sauðkindur lifa á eyjunum en Færeyingar

Sauðkindin hefur í gegnum aldirnar haldið lífinu í Færeyingum og var sauðfjárrækt mikilvægasta atvinnugrein eyjaskeggja allt fram á 20. öld. Það skal því engan undra að nafnið Føryoar merkir fjáreyjar á færeysku.

Þegar norrænir landnámsmenn komu til Færeyja á 9. öld fundu þeir fyrir írska munka og mikið af sauðfé á eyjunum. Þetta sauðfé ásamt fé sem landnámsmenn höfðu í för með sér hefur í hundruði ára aðlagast færeyskri náttúru og myndar uppistöðuna af færeyska sauðfjárkyninu í dag.

Færeyska féð er fremur lágvaxið, léttbyggt, nægjusamt og einstaklega fótvisst. Ennfremur er færeyska sauðkindin búin dýrmætri ull til að standast hvers kyns veðurskilyrði. „Ull er Føryoa gull“ segir í gömlu færeysku spakmæli, enda var ull lengi vel aðal útflutningsvara Færeyinga.

Flest þorp í Færeyjum eru meðfram ströndinni. Mynd/Rav

Íbúum Færeyja fer fjölgandi

Íbúafjöldi í Færeyjum þróaðist hægt í fyrstu og það var ekki fyrren upp úr miðri 19. öld að íbúum fór að fjölga eitthvað að ráði. Í byrjun 20 aldar bjuggu aðeins 15.230 manns í Færeyjum. Í dag 121 ári síðar búa rúmlega þrisvar sinnum fleiri í Færeyjum eða 53.513 (október 2021) manns.

Rúmlega helmingur íbúa eru karlar (52%) og er meðalævilengd þeirra 79,9 ár en kvenna 84,4 ár. Í Færeyjum fæðast 2,4 börn á hverja konu sem er meðal þess sem best gerist í Evrópu.

Sumar eyjarnar eru mjög fámennar og er aðeins hægt að nálgast þær af sjó eða úr lofti. Mynd/Markus Bilz

Víða strjálbýlt og einmannalegt

Allar eyjarnar nema ein eru í byggð. Íbúafjöldi eyjanna er mjög misjafn og er minnst 1,1 og mest 66,9 íbúar á hvern km2. Tæplega helmingur allra Færeyinga (48%) búa á eyjunni Straumey, þar sem höfuðborgin Þórshöfn er staðsett.

Margar eyjanna eru tengdar með neðansjávargöngum eða brúm. Sumar þeirra er þó aðeins hægt að ferðast til sjóleiðis eða með þyrluflugi.

Himinhá fjöll blasa hvarvetna við íbúum Færeyja. Mynd/Mikkel Wejdemann.

Samband Færeyja og Danmerkur

Færeyjar eru sjálfstjórnarríki sem tilheyrir Danmörku. Frá 1948 hafa Færeyingar séð um flest sín innanríkismál sjálfir, en Danmörk ber ábyrgð á varnar- og utanríkismálum eyjanna ásamt löggæslu þeirra.

Færeyjar njóta umtalsverðra fjárstyrkja frá Danmörku sem meðal annars veldur því að þjóðin skiptist í tvo nánast jafn stóra hópa þegar kemur að ákvörðun um sjálfstæði eyjanna. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið árið 1946 var niðurstaðan svo jöfn að það þurfti að kjósa aftur. Í seinni umferð var naumur meirihluti gegn því að lýsa yfir sjálfstæði Færeyja og þar við situr enn.

Frá árinu 1938 er töluð færeyska í kirkjum landsins. Mynd/Mikkel Wejdemann.

Færeyingar eru danskir ​​ríkisborgarar og hafa val um að fá færeyskt/danskt vegabréf eða danskt vegabréf, en hafa sinn eiginn gjaldmiðil færeysku krónuna, sem er nokkurs konar staðbundin útgáfa af dönsku krónunni með sama verðgildi og danska krónan hefur.

Er Danmörk gekk í Evrópusambandið ákváðu Færeyjar að halda sig utan við það til að vernda fiskimið sín.

Mæli með þessu kynningarmyndbandi ferðaþjónustufyrirtækisins Visit Faroe Islands!

„Minnst“ af germönsku tungumálunum

Færeyska er fornnorrænt, tungumál sem er náskylt íslensku. Eftir siðaskipti kirkjunnar á 16. öld var bannað að tala færeysku opinberlega eða í kirkjum og skólum landsins. Í meira en þrjár aldir lifði tungumálið í gegnum hefðir í ljóðum, sögum og dönsum Færeyinga.

Það var ekki fyrr en árið 1938 sem Færeyingar fengu aftur að tala sitt eigið tungumál í kirkjum og skólum landsins. Tíu árum síðar var færeyska gert að aðaltungumáli eyjanna.

Lifandi og líflegt þýðingarforrit færeyskrar tungu sem á sér engan líka!

Danska er nú opinberlega annað tungumál eyjanna. Flestir Færeyingar skilja og tala ensku þar sem hún er einnig kennd í skólum landsins.

Hér má heyra hvernig það hljómar þegar Færeyingar segja „Ég elska Færeyjar „ eða „allt í lagi“(smella á textann).

Gott er að vera við öllu búinn, því veður breytist hratt í Færeyjum! Mynd/Kasper Lau.

Úthafsloftslag með tíðum veðraskiptum

Veðrið í Færeyjum er einstaklega breytilegt, rakt og vindasamt. Þar er dæmigert úthafsloftslag með litlum hitabreytingum milli árstíða. Vegna áhrifa Golfstraumsins er það milt á veturna og fremur svalt á sumrin.

Meðalhiti í höfuðborginni Þórshöfn árið 2020 var 7,2° C. Þar mældist mesti hiti 16,4° C og lægst hiti -3,6° C, sólskinsstundir voru 1092, frostdagar 33 og meðalúrkoma 1288 mm (2020). Í meðalári er hagstæðast að heimsækja Færeyjar í júlí þar sem líkur á sólardögum eru þá mestar.

Annað vel heppnað kynningarmyndband frá ferðaþjónustu Færeyja sem vert er að kíkja á!

Árangursrík auglýsingaherferð

Árið 2016 var hleypt af stokkunum auglýsingaherferð í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækið Visit Faroe Islands og færeyska flugfélagið Atlantic Airways undir forystu ungrar konu að nafni Durita Dahl Andreassen. Markmið verkefnisins var að kynna Færeyjar sem ferðamannaland og fá netrisann Google til að kortleggja eyjarnar með Google Street View.

Á mjög skömmum tíma tókst Duritu að draga athygli umheimsins að Færeyjum með einstaklega frumlegri hugmynd. Og á ný var það sauðkindin lék stórt hlutverk og hjálpaði Færeyingum að ná settu marki.

Sauðkind „að störfum“ með myndatökuútbúnað og sólarrafhlöðu á bakinu.

Google Sheep View 360°

Með því að koma fyrir 360˚ myndavél ásamt sólarrafhlöðu á baki sauðkindar sem fékk að vafra frjáls um í náttúrunni, var hægt að streyma myndum og vídeóum af hinu fallega færeyska landslagi og í gegnum farsíma Duritu inn á Street view vef Google sem hún kallaði Google Sheep View. Stórfyndnar og skemmtilegar bloggfærslur Duritu um verkefnið fengu fljólega athygli umheimsins og urðu geysivinsælar.

Eftir aðeins nokkra mánuði hafði verkefnið einnig fangað athygli starfsmanna Google sem komu til Færeyja með tilheyrandi útbúnað og hófu að kortleggja Færeyjar og setja inn á Google Street View. Á sama tíma fylltust öll hótel í Færeyjum af ferðamönnum. Takmarki verkefnisins var náð og Færeyjar komnar á allra varir!

Durita Dahl Andreassen og kindurnar hennar beindu sjónum manna að Færeyjum og gerðu heimaland hennar að vinsælu ferðamannalandi.


HEIMILDIR:

https://www.visitfaroeislands.com/

https://hagstova.fo

https://www.faroeislandstranslate.com/

https://de.wikipedia.org/wiki/Autonomie_der_F%C3%A4r%C3%B6er

https://www.faroeislands.fo/

https://www.smyrilline.com/

https://www.atlanticairways.com/

https://hiking.fo/

Viltu deila þinni hestasögu með okkur!

Hefur þú upplifað eitthvað eftirminnilegt í samskiptum þínum við hross eða kannski samið stutta hestasögu?

Ef svo er, endilega sendu okkur söguna þína!

SENDA INN SÖGU

SÖGURNAR OKKAR

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna